Virtu þig, veittu þér athygli, hlustaðu!!!..

Inni í hverri manneskju er hennar eigin uppspretta, innsæi, hennar innra barn. Þetta barn veit alltaf hvað er best fyrir okkur, og þetta barn hefur rödd.

Þetta er röddin sem við fæðumst með. Svo byrjum við að heyra aðrar raddir, rödd pabba, rödd mömmu, rödd félaga, vina, vinkvenna, systkina, yfirmanna…eða bara allar þessar ytri raddir samfélagsins.  Þær sem eru í innsta hring, og hafa verið með okkur lengst eru yfirleitt háværastar.

Stundum heyrum við ekki í okkar rödd, og stundum teljum við okkur trú um að hún hafi minnst vægi við okkar ákvarðanir. Hinar raddirnar eru merkilegri, en þessi sem kemur innan frá. Oft er eins og við greinum þessa innri rödd, þessa sem kemur frá hreinni uppsprettu, sem vill okkur það besta fyrir okkur. Það er röddin sem segir að við eigum skilið að láta drauma okkar rætast, röddin sem segir að við megum skína og taka pláss í þessu lífi. Röddin sem segir „Ég elska þig“ og hún meinar það.

En af einhverjum ástæðum, kannski af því að við höfum fengið þau skilaboð, þá tökum við ekki alltaf mark á þessari rödd, hlustum ekki á hana og svörum ekki þegar hún segist elska okkur.

Þegar við sem börn, dettum og meiðum okkur, og einhver fullorðinn segir „þú meiddir þig ekkert“ … hverjum eigum við að trúa? …Eða þegar við erum að gráta þegar við erum leið, og biðjum um faðmlag og einhver sýni okkur skilning, en sagt er við okkur „hérna, fáðu kökubita“ … þá verðum við ringluð. Við vorum ekki svöng í köku, heldur skilning.

Barn sem lendir í misnotkun veit í hjarta sér að það er rangt, en sá/sú sem misbýður eða misnotar lýgur einhverju, að einhver verði e.t.v.særður, eða jafnvel,deyi ef það segi frá. Barnið vill ekki skapa vesen, vandamál, það segir ekki frá. Ef sá sem misnotar er náinn vill það ekki koma honum í vandræði og tekur í raun á sig skömm og sök. Stundum treystir Það ekki eigin innsæi, því einhver var búinn að segja að það finndi ekki til þegar það fann til.

Svo verðum við ungmenni, og röddin segir; „Gerðu það sem gerir þig hamingjusama/n“ … kannski er það að fara í bóknám, kannski í verknám, kannski í list, íþróttir, eða að vinna. En ef þú heyrir ekki í þínu vali vegna þess að óskir foreldranna eru háværari, þá gæti verið að þarna verði misbrestur á, þú velur kannski nám eða starfsframa á forsendum annarra en sjálfs þín.

Þú kynnist maka þínum, hann stjórnast í þér eða talar niður til þín, þú leyfir það, því þú skynjar ekki verðmæti þitt. þú hlustar ekki á röddina sem segir; þú átt betra skilið, „farðu“ því þú þráir svo mikið að vera elskaður/elskuð og í sambandi, en þú fattar ekki að þú ert að reyna að fá frá þessum maka það sem þú átt innra með þér. Það er búið að telja þér trú að þú hafir það ekki,  en þarft bara að hlusta og þá heyrir þú í og skynjar ástina.

Við hættum að hlusta eða treysta okkar eigin rödd, við týnum henni því það er búið að hringla svo mikið í henni.

Þegar við svo verðum fullorðin og finnum sársauka, afneitum við honum, bælum hann, flýjum hann .. við hlustum ekki.

Þegar við sýnum sjálfum okkur tómlæti, heyrum ekki barnið kalla; „hlustaðu!“ þá erum við að hafna tilfinningum okkar, óvirða barnið hið innra og það upplifir höfnun.   þar sem við og þetta innra barn erum eitt, upplifum við að við séum að hafna sjálfum okkur, okkar vilja og okkar löngunum.  Við skiptum ekki máli,  við upplifum gjaldfellingu á innra verðmæti þegar á það er ekki hlustað. Þegar við áttum okkur á að við vorum ekki að virða okkur, við vorum að hylma yfir frmkomu makans jafnvel, upplifum við skömm.  Við skömmumst okkar fyrir að hafa ekki hlustað, að hafa ekki virt okkur meira.

Hvað átt þú skilið? Hvað á þitt innra barn skilið? Að þú hlustir á allar hinar raddirnar eða þína eigin?  Er ekki dásamlegt að geta fylgt hjarta sínu, draumum sínum, eigin sannfæringu og vilja? ..

Þegar okkur er misboðið, þegar við erum óvirt og við hlustum ekki á mótmæli barnsins, sem reynir að láta okkur vita, göngum við gegn okkur sjálfum.

Höfum hugrekki til að hlusta, og fylgja þessu innra ljósi, því það mun lýsa okkur á réttan farveg.  Það er e.t.v. stærsta hlutverk lífs hverrar manneskju að vernda þetta barn, elska það og virða og taka þannig ábyrgð á heilsu þess og hamingju.

Verum okkur góð, við eigum það skilið.

 

Ein hugrenning um “Virtu þig, veittu þér athygli, hlustaðu!!!..

Færðu inn athugasemd