Áslaug Dóra áfram á Selfossi

Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Varnarmaðurinn Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir hefur gert nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss.

Áslaug Dóra hefur þrátt fyrir ungan aldur verið lykilmaður í kvennaliði Selfoss undanfarin þrjú ár. Hún er 18 gömul, fjölhæfur varnarmaður, og er ein af efnilegustu knattspyrnukonum landsins.

Hún hefur leikið 67 meistaraflokksleiki fyrir Selfoss, þar af 48 í efstu deild. Áslaug Dóra er fyrirliði U19 landsliðs Íslands en hún hefur leikið samtals 21 landsleik með U16, U17 og U19 landsliðunum.

„Ég er mjög ánægð með að vera búin að framlengja við uppeldisfélagið mitt. Selfoss hefur alltaf staðið fyrir sínu, umgjörðin er frábær og mér líður mjög vel hérna. Það eru spennandi tímar framundan og get ég ekki beðið eftir næsta tímabili,“ segir Áslaug Dóra.

Fyrri grein169 í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinGleðileg jól!