Appelsínugul viðvörun fyrir Suðurland: Vegum lokað og hætta á foktjóni

Þjóðvegur 1 undir Eyjafjöllum. sunnlenska.is/Jóhanna SH.

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland frá klukkan þrjú í nótt og fram á miðvikudagsmorgun. Appelsínugul viðvörun hefur verið gefin út á meðan versta veðrið gengur yfir, eftir klukkan 15 á morgun.

Í nótt gengur í austan hvassviðri eða storm á Suðurlandi. Víða verður mikill skafrenningur, einkum fyrir hádegi og búast má við lélegu ferðaveðri, sérstaklega á fjallvegum.

Hætta á foktjóni og ekkert ferðaveður
Um miðjan dag og fram á kvöld má jafnvel búast við staðbundnu ofsaveðri í Austur-Landeyjum og undir Eyjafjöllum. Hviður geta náð allt að 45 m/sek og er hætta á foktjóni og ekkert ferðaveður.

Eftir klukkan 22 á þriðjudagskvöld má búast við að um hægist, en gul viðvörun er áfram í gildi fram til klukkan 18 á miðvikudagsmorgun.

Suðurlandsvegi líklega lokað
Búast má við að Suðurlandsvegi verði lokað á þriðjudag og fram á miðvikudag fyrir austan Hvolsvöll, vegna veðurs.

Vegagerðin gerir ráð fyrir að loka veginum milli Hvolsvallar og Víkur klukkan 12 á hádegi á morgun og verður hann líklega ekki opnaður aftur fyrr en kl. 4, aðfaranótt miðvikudags.

Þá er gert ráð fyrir að vegurinn um Skeiðarársand og Öræfi, frá Núpsstað og austur á Höfn, verði lokaður frá klukkan 16 á morgun og til klukkan 10 á miðvikudagsmorgun.

Fyrri greinElvar Örn semur við Skjern
Næsta greinHaukur með tíu mörk í háspennuleik