Gamlir Þórsarar taka fram skóna

Leikmenn Þórs í Þorlákshöfn 1974 – 1984 ætla að hittast í Þorlákshöfn í dag og gleðjast saman, minnast góðra tíma, sigra og ósigra og þess sem gladdi augað og hugann.

Hátíðin hefst kl. 14:00 á gervigrasinu í Þorlákshöfn með hefðbundnum æfingum og leik, en kl. 17:00 verður steðjað í Ráðhúskaffi í mat og hátíðardagskrá.

Allir áhugamenn Þórs eru velkomnir að fylgjast með æfingunni og leiknum.

Myndin sem fylgir fréttinni er tekin í september 1982 eftir sigur Þórsara í bikarkeppni HSK. Þetta var sigursælasta ár Þórs til þessa, sem vann tvöfalt í HSK-keppninni og komst í úrslitakeppni 4. deildar Íslandsmótsins. Þetta sumar vann liðið níu leiki og gerði eitt jafntefli, gegn Hveragerði 1-1 og markatalan eftir sumarið var 40-7. Árni Njálsson var knattspyrnustjóri. Liðinu gekk þó ekki eins vel í úrslitakeppninni og komst ekki upp úr deildinni en vann þó Stjörnuna 2-0 í síðasta leik.

Á myndinni eru (fremri röð frá vinstri) Hólmar Sigþórsson, Guðmundur Einarsson (látinn), Sigurður Óskarsson, Jóhannes Guðmundsson (látinn), Eyjólfur Ólafsson, Gylfi Guðmundsson, Ármann Einarsson og Eiríkur Jónsson. (Aftari röð frá vinstri) Björn Arnoldsson, Árni Njálsson, Hannes Haraldsson, Bergþór Kárason, Róbert Ingimundarson, Stefán Garðarsson, Páll Svansson, Ásberg Lárenzínusson og Jón Pétur Guðjónsson.

Hægt er að sjá stærri útgáfu af myndinni með því að smella á hana.

Fyrri grein„Liðsheildin vann þennan leik“
Næsta greinSkagamenn höfðu betur á Selfossi