Mataræði, Safar
Færðu inn athugasemd

Listin að djúsa!

2014-10-04 22.34.59
Það besta sem ég veit er að byrja daginn á nýpressuðum safa sem ég hef gert í safavélinni minni. Ég keypti mér safavél í kringum páskana og hef ég notað hana stöðugt síðan.  Ég var lengi að ákveða hvort ég ætti að kaupa hana því ég var ekki viss um að ég myndi nota hana mikið né hvort mér myndi finnast  grænmetissafar góðir. Ef þér hefur eitthverntímann fundist erfitt að borða mikið af grænmeti, þá myndi ég hiklaust fjárfesta í safavél því það er eitt besta skref sem þú getur tekið fyrir heilsuna.

Ég hef bara átt safavélina í nokkra mánuði núna og ég geri nýpressaðan safa ca 3-4 daga í viku. Þegar ég var nýbyrjuð að djúsa setti ég jafnmikið af grænmeti og ávöxtum. En svo komst ég að því að það er ekki gott fyrir líkamann að djúsa mikið af ávöxtum. Þó að ávextir séu stútfullir af vítamínum og steinefnum, bera þeir mikið af sykri í líkamann í frúktósaformi. Frúktósi er eitthvað sem við þurfum að takmarka, sérstaklega í safaformi, hann hraðar t.d. öldrunarferlum líkamans. Þegar við erum að djúsa er eins og að næringarefnin fari beint í æð, trefjarnir eru síaðir frá þannig líkaminn þarf ekki að hafa fyrir því að melta hann. Það er því ekki gott fyrir blóðsykurinn okkar að djúsa svona mikið af ávöxtum, ávaxtasykurinn í þeim veldur toppi í blóðsykrinum. Trefjar eru fyllandi og án þeirra í safanum verða sumir svangir aftur fljótlega, sniðugt er að fá sér safa strax um morguninn og fá sér eitthvað aftur eftir klukkutíma, t.d. hafra- eða chiagraut.

IMG_20140328_090241Það er best fyrir okkur að djúsa sem mest af grænu grænmeti, það framleiðir blaðgrænu sem hjálpar líkamanum okkar að binda súrefni. Þetta hjálpar til við að hreinsa og afeitra líkaman, bæta blóðrásina okkar og þ.a.l. gefa þér náttúrulegt orkuskot. Grænt grænmeti veldur ekki toppi í blóðsykri og insúlíni eins og í ávöxtum og sætu grænmeti (gulrætur og rauðrófur). Þegar ég geri rauðrófusafa set ég t.d. smá kanil og hræri útí því að hann jafnar blóðsykurinn. Maður getur fengið sér sæta grænmetissafa þegar maður vill gera vel við sig, en best er að halda sig við þann græna meirihluta vikunnar.

Ég vil að þið hafið það í huga að sumt grænmeti og ávextir verðum við helst að kaupa lífrænt, en annað ekki. Það er betra fyrir okkur að sleppa epli yfir höfuð heldur en að kaupa það útatað í skordýraeitri. Eins er það miklu skemmtilegra að djúsa lífrænt grænmeti því þá slepp ég við það að afhýða. Það sem ég kaupi alltaf lífrænt er: epli, perur, sítrónur (nettó/krónan) og það sem ég finn ekki lífrænt kaupi ég íslenskt því þá er það búið að ferðast minni vegalengd og minni líkur á að það sé mikið sprautað. Reglan er nokkurnvegin sú að það sem er með berki/hýði sem þú ætlar ekki að borða né nota til matreiðslu skaltu kaupa ólífrænt.

Kostir þess að djúsa:

  • Tilfinningin sem ég finn fyrir eftir að hafa fengið mér safa er mögnuð, maður fær orkuna beint í æð og manni finnst maður geisla.
  • Mér finnst langbest að gera þetta á morgnanna og finnst mér ég vera að leggja grunnin að góðri meltingu yfir daginn.
  • Ég er alltaf að reyna að borða mikið af grænmeti en ég næ ekki að borða ráðlagðan dagskammt yfir daginn. Með því að djúsa næ ég að innbyrða miklu meira af grænmeti en ég gerði áður, það var aðal ástæðan fyrir því að ég keypti mér safavél.
  • Það kom mér mjög á óvart hvað grænmetissafar eru góðir, ég set alltaf mesta lagi 1 ávöxt í safan á móti helling af grænmeti svo megin uppistaðan er grænmeti og samt eru þeir mjög góðir.
  • Það tekur ekki langan tíma að græja safan á morgnanna, það er alveg þess virði að vakna 15 mín fyrr til þess að dekra svona við líkamann.
  • Maður veit að safinn er 100% hreinn í ljósi þess að maður gerði hann sjálfur. Maður finnur svo vel hversu gott maður er að gera fyrir líkamann sinn.
  • Þú færð fljótlega náttúrulega orku innan 20 mínútna þar sem safinn er auðmeltanlegur. Vill maður ekki frekar fá sér hollan og góðan safa heldur en að þurfa notast við örvandi orkugjafi eins og og t.d. kaffi eða orkudrykki sem gerir líkamanum nákvæmlega ekkert gott ?
  • Maður getur aukið grænmetisfjölbreytnina í matarræðinu til muna, ég fæ mér t.d. oftast sama grænmetið með mat en með því að djúsa get ég djúsað hvað sem er, sérstaklega grænmeti sem ég er ekki vön að borða með mat.
  • Manni líður eins og maður fái vítamín, steinefni og ensím beint í æð, einnig hjálpar það okkur að fá öll næringarefnin úr grænmetinu að djúsa.

Það kom mér merkilega á óvart hversu vel mér líður af því að djúsa en enn merkilegra er hversu gott kærastanum mínum og móður finnst að fá nýgerðan safa.

Hér er einn góður til þess að gera vel við sig svona á sunnudagsmorgni.

 Gulrótarsafi – safi fyrir 1

  • 4 myntustönglar
  • 100 g gulrætur
  • 1 lífrænt epli
  • 1/2 sítróna
  • 2 cm engifer

Ef þið eigið ekki safavél getiði gert þetta í blandara og síað safann svo með síupoka sem þið getið keypt í Ljósinu . Best er þó að nota safavél og því hægari sem hún er því meiri varðveitist af næringarefnum. Verði ykkur að góðu.

2014-10-04 22.34.26

Færðu inn athugasemd